Veitingar

“Moss restaurant hlaut, á sínu fyrsta starfsári, viðurkenningu Michelin fyrir einstaka matarupplifun og framúrskarandi þjónustu.”

Veitingar

Rekstur veitingasviðsviðs Bláa Lónsins árið 2018 gekk afar vel og var árið það veltuhæsta frá upphafi. Tekjuvöxtur milli ára nam 39%. Nú eru reknir þrír veitingastaðir í Bláa Lóninu, eitt kaffihús auk þess sem framreiddur er morgunverður á Silica Hotel og Retreat Hotel. Þá rekur veitingasvið einnig  matstofu starfsmanna sem nefnist Bláberið.

Moss Restaurant

Með opnun The Retreat þann 1. apríl 2018 var opnaður nýr hágæða veitingastaður, Moss Restaurant þar sem áherslan er lögð á magnaða matarupplifun. Gestir Moss hefja ferðalagið gjarnan í einstökum vínkjallara sem hefur að geyma tæplega 5.000 vínflöskur af um 500 mismunandi tegundum. Óhætt er að segja að Moss Restaurant hafi hlotið góðar viðtökur og hafa dómar gesta og matargagnrýnanda verið á einn veg. Í dag er veitingastaðurinn metinn einn sá besti á Íslandi og sá eini sem hefur hlotið þrjá gaffla (e. forks) hjá Michelin hér á landi. Það er einstök viðurkenning, sér í lagi sé horft til þess að veitingastaðurinn er nú að ljúka sínu fyrsta rekstrarári.

LAVA Restaurant

Rekstur Lava Restaurant gekk afar vel á árinu og var töluverður vöxtur í sölu milli ára en um 15% lónsgesta heimsóttu Lava. Vel gekk að stilla saman þjónustu við hópa og einstaklinga en sala til hópa var 12% af heildarsölu Lava. Gestir voru almennt afar ánægðir með þjónustu og gæði matar eins og sjá má á ummælum og dómum á samfélagsmiðlum.

Spa Restaurant

Veitingastaðurinn Spa Restaurant var opnaður samhliða opnun Retreat Spa. Hann býður gestum heilsulindarinnar upp á ferska og heilsusamlega rétti auk þess sem þeir geta notið léttra veiga í sérstöku veitingalóni í Retreat Spa. Þá sér Spa Restaurant einnig um morgunmat fyrir hótelgesti á Retreat Hotel og veitingar í móttökusal hótelsins.

Blue Café

Rekstur Blue Café var mjög góður á árinu. Á kaffihúsinu er gestum Bláa Lónsins boðið upp á létta rétti, samlokur, drykki og kaffiveitingar. Áhersla er lögð á gæði og gott hráefni og eru allir réttir útbúnir í köldu eldhúsi á staðnum. Þá rekur Blue Café einnig hin vinsæla Bláa Lóns bar þar sem gestir geta fengið sér hressingu úti í lóni.

Bláberið

Í lok mars var opnuð ný og glæsileg matstofa fyrir starfsmenn þar sem gamla matstofan var orðin of plásslítil enda ekki gerð fyrir þann fjölda starfsmanna sem nú starfar í Bláa Lóninu. Hönnun matstofunnar tekur mið af því að gera starfsmönnum sem standa í ströngu allan daginn kleift að fá næði og næra sig í fallegu og notalegu umhverfi. Í matstofunni er áhersla lögð á fjölbreyttan og hollan mat, frá morgni til kvölds, og reynt er að koma til móts við ólíkar þarfir þess fjölbreytta hóps sem starfar hjá Bláa Lóninu.

Nokkrar staðreyndir frá hótel og veitingasviði

237 tonn

af grænmeti og ávöxtum

21 tonn

af hveiti í brauð

27 tonn

af lambakjöti og þar af 16.869 kg lambafillet

42 tonn

af fisk frá Grindavík

52 tonn

af Ísey skyr í boostin

19 tonn

af nautalundum sem við keyptum

Start typing and press Enter to search