Verslanir
„Það er einfaldlega einstök upplifun að koma inn í verslun Bláa Lónsins á Laugavegi,“ sagði í niðurstöðu dómnefndar þegar verslun Bláa lónsins á Laugavegi hlaut Njarðarskjöldinn 2018.”
Rekstur verslana Bláa Lónsins árið 2018 gekk vel og var árið það veltuhæsta frá upphafi, jókst um 4% frá fyrra ári. Eins og áður var lögð höfuðáhersla á að hámarka upplifun viðskiptavina með framúrskarandi þjónustu. Mikil áhersla var á þjálfun starfsfólks og sóttu starfsmenn í verslunum sérstök sölu- og þjónustunámskeið sem voru sérsniðin að þörfum og kröfum Bláa Lónsins. Námskeiðin skiluðu góðum árangri sem endurspeglast í aukinni sölu og ánægju starfsmanna og viðskiptavina.
Verslun Bláa Lónsins á Laugavegi var stækkuð og færð í nýtt útlit í lok árs. Breytingin kom vel út, hefur mælst vel fyrir og skilað veltuaukningu frá fyrsta degi. Á rekstrarárinu var verslun Bláa Lónsins á „non-Shengen“ svæði Leifstöðvar lokað en í stað hennar var settur upp vörustandur í Fríhöfninni.
Til að koma til móts við mikla fjölgun kínverskra gesta var á haustdögum innleidd ný greiðslulausn, Alipay. Þjónustan hefur þegar skilað sér í aukinni ánægju og veltu meðal þessara ferðamanna.
Bláa Lóns vörurnar fengu tvenn alþjóðleg verðlaun á árinu, Lava scrub var valið Best off hjá GQ tímaritinu og Balancing Oil-free hjá tímaritinu Teen Vogue. Þá hlaut verslun Bláa Lónsins á Laugavegi Njarðarskjöldinn, hvatningarverðlaun, fyrir stílhreina verslun og faglega þjónustu í miðbæ Reykjavíkur.