Innri áherslur

“Bláa Lónið sem vörumerki er í algjörri sérstöðu, verðmæti og styrkleiki þess í alþjóðlegu samhengi er alltaf að koma betur í ljós.”

Áhersla á innri uppbyggingu

Eftir mikinn vöxt félagsins síðustu ár, með uppbyggingu Retreat, Retreat Spa og Moss og fjölgun gesta í lónið, snéru helstu áherslur í starfsemi félagsins á árinu að áframhaldandi innri uppbyggingu. Markmiðið var að auka skilvirkni m.a. með sameiningu hótel- og veitingadeildar annars vegar og sölu- og markaðsdeildar hins vegar, ásamt uppfærslum á upplýsingatæknikerfum, betri nýtingu gagna og stafrænni þróun.

Uppfærslu á grunnkerfum lauk nú á vormánuðum og var veturinn nýttur í greiningar- og grunnvinnu tengdri stafrænni vegferð félagsins sem unnin var með aðstoð sérfræðinga frá DGI á Ítalíu. Horft er til þess á nýju starfsári að halda þeirri vegferð áfram en meginþungi þess verkefnis er áætlaður á næstu 12-18 mánuðum.

Vörumerkjamál

Bláa Lónið sem vörumerki er í algjörri sérstöðu og verðmæti og styrkleiki þess í alþjóðlegu samhengi er alltaf að koma betur í ljós. Á undanförnum árum hefur félagið þurft að gæta hagsmuna sinna og tryggja hugverkaréttindi þar sem fjölmargir aðilar um allan heim vilja, beint eða óbeint, tengja sig við Bláa Lónið. Árlega eru tugir mála skoðuð og áframhaldið eftir atvikum. Fer þessi fjöldi vaxandi frekar en hitt. Eðli málsins samkvæmt eru þau misstór og yfirgripsmikil, sum fara fyrir dómsstóla en önnur eru tekin fyrir hjá Einkaleyfastofum um allan heim.

Íslenskar Heilsulindir

Íslenskar heilsulindir er eitt af dótturfélögum Bláa Lónsins. Í gegnum fyrirtækið hefur félagið komið að uppbyggingu baðstaða um allt land þar sem þekking og reynsla innan Bláa Lónsins hefur nýst til uppbyggingar. Má í því samhengi nefna Fontana við Laugarvatn og Jarðböðin á Mývatni og í gegnum það síðarnefnda, Sjóböðin á Húsavík og nú síðast Vök á Egilsstöðum sem áætlað er að hefji starfsemi síðar á þessu ári.  Þá leiðir félagið uppbyggingu baðstaðaverkefnis við Rauðukamba í Þjórsárdal.

Start typing and press Enter to search