Baðstaðir
“Nudd í heitum jarðsjó undir berum himni á hjara veraldar er einfaldlega einstök upplifun.”
Sérstaða Bláa Lónsins er jarðsjórinn. Hann kemur af 2.000 metra dýpi úr iðrum jarðar. Á Reykjanesskaga er mjög gljúpt hraun og síast sjór og ferskvatn inn í jarðlögin. Jarðsjórinn sem myndast er að tveimur þriðju hlutum saltvatn og að einum þriðja hluta ferskvatn. Vegna jarðhita á svæðinu verða efnahvöf sem veldur því að jarðsjórinn sem myndast er ríkur af steinefnum, kísli og þörungum. Þessi sérstaða jarðsjávarins myndar þannig grunninn að öllum þeim fjölbreyttu húðvörum sem Bláa Lónið framleiðir og er um leið grunnurinn að lækningamætti lónsins.
Bláa Lónið
Á árinu 2018 tók Bláa Lónið á móti ríflega 1,25 milljónum gesta í lónið. Á sama tíma jukust meðaltekjur á hvern gest.
Eins og áður var upplifun gesta höfð að leiðarljósi en á árinu voru gerðar breytingar á vöruframboði til einföldunar og til að auka gæði. Allir gestir fá nú afhent handklæði og drykk ofan í lóni á meðan á heimsókn stendur. Breytingin hefur mælst einkar vel fyrir af gestum.
Retreat Spa
Þann 1. júní var Retreat Spa opnað fyrir daggesti. Baðupplifunin er einstök þar sem hönnun staðarins miðar að því að tengja saman náttúru hans og einstaka eiginleika jarðsjávarins. Á Retreat Spa er mikið lagt upp úr næði gesta og því eru símar og myndatökur ekki leyfðar. Samhliða opnuninni var sala á aðgangi í Betri stofu Bláa Lónsins hætt.
Þá sjö mánuði sem Retreat Spa var opið árið 2018 komu rúmlega 17 þúsund daggestir sem er 67% nýting á klefum.
Vissir þú að
Gestir lónsins notuðu 60 tonn af kísil á síðasta ári
Ánægja gesta
Bláa Lónið stendur fyrir reglulegum mælingum á ánægju gesta, meðal annars með því að mæla svokallað NPS-skor. Mælingin er vísbending um ánægju gesta lónsins og hversu líklegir þeir eru til að mæla með því við vini og fjölskyldu. Meðalskorið á árinu 2018 nam 59,4 og helst það í hendur við fyrra ár, sem er afar jákvætt.