Mannauður

“Hjá Bláa Lóninu starfar samhentur hópur starfsfólks sem á sér sameiginlegt markmið – að skapa ógleymanlegar minningar.”

Fáir vinnustaðir á Íslandi geta státað sig af jafn fjölbreyttri flóru starfa og starfsfólks og Bláa Lónið. Í árslok 2018 störfuðu hjá fyrirtækinu 874 í 726 stöðugildum. Að meðaltali voru stöðugildin 662 á árinu. Á síðasta ári var fólk af 42 þjóðernum sem starfaði í Bláa Lóninu. Styrkur Bláa Lónsins liggur ekki síst í mismunandi menntunarstigi, menningu og þjóðerni starfsmanna þess. Saman myndar þetta fólk öfluga heild sem er afar vel í stakk búin að taka á móti ferðamönnum með ólíkar óskir og þarfir.

0
Fjöldi starfsfólks
0
Þjóðerni
0
Meðalaldur starfsfólks

Eftirsóknarverður vinnustaður

Bláa Lónið auglýsti 42 störf á árinu 2018 og heildarfjöldi umsókna var 5.356. Hjá fyrirtækinu starfar fólk frá ólíkum heimshlutum, með mismunandi bakgrunn og reynslu. Saman myndar þetta fólk öfluga heild sem er afar vel í stakk búin að taka á móti ferðamönnum með ólíkar óskir og þarfir.

Fjöldi stöðugilda

Jafnlaunavottun

Í desember 2018 stóðst Bláa Lónið lokaúttekt alþjóðlega úttektaraðilans British Standard Institute á jafnlaunakerfi Bláa Lónsins. Félagið stóðst úttektina með mikilli prýði þar sem engin frávik fundust. Það telst afar góður árangur í svo fjölmennu fyrirtæki sem hefur innan sinna raða jafn fjölbreyttan og ólíkan hóp starfsmanna. Jafnlaunavottun Bláa Lónsins er mikilvægur áfangi og staðfesting á því að fyrirtækið fylgir jafnlaunastefnu sinni í einu og öllu. Með vottuninni var Bláa Lóninu veitt Jafnlaunamerkið en það er eingöngu veitt þeim fyrirtækjum sem hafa hlotið faggilta vottun á jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012.

Hraunsetur – húsnæði fyrir starfsfólk tekið í notkun

Í nóvember tók Bláa Lónið í notkun nýtt og glæsilegt fjölbýlishús fyrir starfsfólk Bláa lónsins sem kallað er Hraunsetur. Húsnæðið er allt hið glæsilegasta en þar eru 24 íbúðir fyrir fjölskyldur, pör og einstaklinga. Mikil eftirspurn er eftir íbúðum í Hraunsetri en sérstakar úthlutunarreglur voru innleiddar til að tryggja jafnræði og gagnsæi við úthlutun íbúða.

Stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi

Bláa Lónið innleiddi stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi á árinu. Með innleiðingunni skuldbindur Bláa Lónið sig til þess að tryggja sem best öruggt vinnuumhverfi fyrir alla sína starfsmenn óháð kyni, kynhneigð, starfsaldri, stöðu eða öðru. Bláa Lónið umber ekki, undir neinum kringumstæðum, einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti eða ofbeldi af neinu tagi. Í tengslum við innleiðinguna var myndað sérstakt viðbragðsteymi sem tekur á þeim málum sem upp kunna að koma.

Fræðsla, heilsa og öryggi

83%

Við erum ánægð í starfi

Bláa Lónið leggur mikla áherslu á fræðslu og þróun í starfi. Alls voru 212 námskeið fyrir starfsmenn haldin á árinu, sem 2.605 þátttakendur sátu. Að auki er starfsfólki gefinn kostur á að sækja utanaðkomandi námskeið sem styrkir það í lífi og starfi.

Ávallt er lögð áhersla á að starfsmenn sæki námskeið í skyndihjálp og björgun. Náið og gott samstarf sem og samráð er haft með viðbragðsaðilum á nærsvæði lónsins. Öryggisferlar eru skýrir og hefur sýnt sig að fræðsla og aukin öryggisvitund hefur gert starfsmönnum kleift að bregðast rétt við aðstæðum þegar slys og óhöpp verða.

Rík öryggismenning er innan fyrirtækisins og allir starfsmenn fá þjálfun í fyrstu hjálp. Starfsfólk er hvatt til að huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu en fyrirtækið lítur svo á að það sé grunnurinn að vellíðan í leik og starfi.

Bláa Lónið heldur úti öflugum samgöngum fyrir starfsmenn. Er það gert til að stuðla að öryggi þeirra og tryggja að þeir komist klakklaust til og frá vinnu. Sérstakar rútur keyra á föstum tíma milli Bláa Lónsins og Reykjavíkur annars vegar og Keflavíkur hinsvegar.

Start typing and press Enter to search