Umhverfis- og gæðamál

“Upplifunin kolefnisjöfnuð.”

Umhverfismál skipta meira máli nú en nokkru sinni. Bláa Lónið hefur ávallt lagt mikla áherslu á umhverfismál og sjálfbærni og látið sér annt um það einstaka umhverfi sem umlykur Bláa Lónið. Kröfur og væntingar gesta okkar eru mikilvæg hvatning til að gera sífellt betur.

Eitt stærsta framtak Bláa Lónsins til umhverfismála er óneitanlega fullnýting jarðsjávarins sem fellur til við orkuvinnsluna í Svartsengi. Með þessari nýtingu hefur Bláa Lóninu auðnast að breyta því sem áður var skilgreint sem hrakstraumur í verðmætan auðlindastraum.

Kolefnisjöfnun

Samið hefur verið við Kolvið um að kolefnisjafna rekstur Bláa Lónsins frá og með árinu 2019. Kolefnisjöfnunin nær til raforku, varmaorku, eldsneytisnotkun bíla Bláa Lónsins, rútur starfsfólks og rútur Destination Blue Lagoon. Þá var kolefnisbókhald lónsins endurbætt á árinu til að ná betur utan um áreiðanlega kolefnislosun fyrirtækisins. Þetta stærsti samningur sem Kolviður hefur gert við nokkurt fyrirtæki á Íslandi til þessa.

kolvidur_logo2018

Hlutfall endurunnins úrgangs jókst um 10% á milli ára

Auk samningsins við Kolvið hefur ýmsum umbótaverkefnum verið hrundið af stað til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Sem dæmi má nefna að á árinu 2018 voru prentuð 20% færri A4 blöð samanborið við árið 2016. Er það dæmi um jákvæða þróun sem rekja má til margra umbóta innan fyrirtækisins eins og rafrænna undirskrifta og aukinnar notkunar skýjalausna.

Bláa Lónið býður starfsfólki sínu upp á fríar rútuferðir til og frá vinnu, en um 30% starfsfólks nýttu sér ferðirnar einu sinni eða oftar í viku á síðasta ári. Markmið Bláa Lónsins er að draga úr losun koltvísýrings vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu með því að hvetja alla til að nýta rútuferðir eða sameinast í bíla eins oft og kostur er.

Vottanir

bsi-assurance-mark-iso-9001-2015-keyb

ISO 9001: Árið 2017 fékk Bláa Lónið Heilsuvörur (BLH) ISO 9001 gæðavottun frá BSI á Íslandi á rekstri sínum. Þau hafa haldið áfram vegferð sinni til stöðugra umbóta og viðhéldu vottuninni árið 2018 með frávikalausri úttekt.

Bláa Lónið hefur verið með vottun frá Vakanum síðan 2014 fyrir baðlónið, veitingarekstur Lava Restaurant og Blue Café. Ferðamálastofa hefur séð um þessar vottanir frá upphafi en hafa nú úthlutað úttektum til viðurkenndra vottunaraðila. Í ár er stefnt að því að útvíkka þessa vottun til alls rekstur Bláa Lónsins og mun BSI á Íslandi sjá um úttektina.

Bláa Lónið hefur viðhaldið Bláfánanum frá upphafi þegar Landvernd tók hann upp hér á landi árið 2002. Landvernd er hætt að sinna því hlutverki en alþjóðlegu bláfánasamtökin munu sjá um úttektir í ár þar til nýr úttektaraðili tekur við því hér á landi. Bláa Lónið stóðst úttekt 2019, rétt eins og fyrri ár. Vinna er í gangi við að bæta upplýsingagjöf til gesta varðandi umhverfistengd verkefni og fræðslu um jarðsjóinn og nærliggjandi umhverfi með uppsetningu fræðsluskilta.

Í lok árs 2018 var VSÓ ráðgjöf fengin til að vinna með starfsfólki veitingareksturs Bláa Lónsins til að tryggja áframhaldandi matvælaöryggi með hliðsjón að viðmiðum GÁMES (innra gæðaeftirlit hjá Matvælastofnun) í kjölfar allra þeirra breytinga sem hafa átt sér stað með stækkun eldhússins. Úr þeirri vinnu varð til verkefnalisti með 28 tækifærum til umbóta sem hafa að hluta klárast en önnur eru í vinnslu.

Start typing and press Enter to search