Grímur Sæmundsen

„Að baki er umfangsmesta ár í starfsemi Bláa Lónsins hvort sem litið er til veltu, þjónustuþátta eða fjölda starfsfólks.“

Að baki er umfangsmesta ár í starfsemi Bláa Lónsins hvort sem litið er til veltu, þjónustuþátta eða fjölda starfsfólks. Árið var ár uppbyggingar, athafna og breytinga.  Starfsemin tvöfaldaðist, nýtt hótel og upplifunarsvæði undir merkjum The Retreat voru opnuð ásamt tveimur nýjum veitingastöðum. Þá hóf Bláa Lónið rekstur á eigin áætlunarferðum til og frá lóninu.  Með þessari uppbyggingu tók Bláa Lónið mikilvæg skref til að þjónusta nýjan markhóp, ferðamenn sem leita eftir afar miklum gæðum, svokallaða fágætisferðamenn

The Retreat á sér enga líka. Hönnun hótelsins og umhverfi þess er glæsilegt og óhætt að segja að fyrsta starfsárið hafi gengið vel. Á hótelinu eru 62 herbergi. Gestir á Retreat Hotel hafa aðgang að Retreat Spa auk þess sem nokkrar svítur hafa einkalón. The Retreat hefur þegar fengið mörg alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar fyrir hönnun, útlit og þjónustu frá því að hótelið opnaði.

„Bláa Lónið hefur ávallt lagt mikla áherslu á umhverfismál og sjálfbærni og látið sér annt um það einstaka umhverfi sem umlykur Bláa Lónið. Eitt stærsta framtak Bláa Lónsins til umhverfismála er óneitanlega fullnýting jarðsjávarins.“

Samhliða þessum stóru verkefnum hélt kjarnastarfsemi Bláa Lónsins áfram að vaxa og dafna ásamt því sem unnið var að þróun og umbótum í starfi félagsins á öllum sviðum.  Skipulagsbreytingar á árinu studdu við aukinn slagkraft í sölu- og markaðsstarfi sem og aukin gæði upplifunar gesta, samlegð og hagkvæmni í rekstri.  Mikil áhersla var lögð á uppbyggingu tæknilegra innviða auk þess sem markviss vinna á sviði stafrænnar þróunar var sett á laggirnar á haustdögum.

Öflugt og gott starfsfólk er auðlind Bláa Lónsins. Við höfum borið gæfu til þess á undanförnum árum að ráða til okkur hæfileikaríkt fólk á öllum sviðum sem hefur lagt sig fram við að þjóna gestum okkar með frábærum árangri.  Starfsfólk af 42 þjóðernum starfaði í Bláa Lóninu í að meðaltali 662 stöðugildum á síðasta ári.

Í lok árs var lokið við byggingu glæsilegs fjölbýlishúss fyrir starfsfólk Bláa lónsins sem kallað er Hraunsetur og er staðsett í Grindavík. Húsnæðið er allt hið glæsilegasta en þar er að finna 24 íbúðir, misstórar eftir fjölgskyldugerð.  Nú þegar eru allar íbúðirnar komnar í útleigu enda eru þær eftirsóttar.  Sérstakar úthlutunarreglur miða að því að tryggja jafnræði og gagnsæi við úthlutun hverju sinni.

Á árinu stóðst Bláa Lónið lokaúttekt alþjóðlega úttektaraðilans British Standard Institute á jafnlaunakerfi Bláa Lónsins. Félagið stóðst úttektina með mikilli prýði þar sem engin frávik fundust.  Er þetta staðfesting á því að fyrirtækið fylgir jafnlaunastefnu sinni í einu og öllu.

„Starfsemi Bláa Lónsins byggir á traustum grunni. Við horfum bjartsýn fram á veginn og munum halda áfram að hlúa að og þróa starfsemi Bláa Lónsins ásamt því að leggja okkar af mörkum til að stuðla að jákvæðri upplifun ferðamanna á Íslandi og sjálfbærum vexti. Við höfum mikilvægu hlutverki að gegna sem leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu hér á landi.“

Bláa Lónið tekur samfélagsábyrgð sína mjög alvarlega.  Á árinu 2018 varði félagið rúmum 200 milljónum króna til samfélagsverkefna, sé í lagi til íþrótta- og æskulýðsmála í heimabyggð sem og til menningar- og heilbrigðismála.  Þá veitti Bláa Lónið íslenskum psoriasissjúklíngum meðferð þeim að kostnaðarlausu og án opinberrar greiðsluþátttöku rétt eins og undanfarin ár. Verkefnið er stærsta einstaka samfélagsverkefni Bláa Lónsins en á árinu sóttu 175 einstaklingar meðferðir í Lækningalind Bláa Lónsins í samtals 2.492 meðferðaskiptum. Fyrirtækið fjárfesti í rannsóknum á lækningamætti Bláa Lónsins ásamt rannsóknum á lífvirkum efnum en félagið ver að jafnaði um 20% af veltu húðvara til rannsóknar- og þróunarstarfs ár hvert.

Markvisst samstarf Bláa Lónsins og Reykjanes Unesco Global Geopark var formfest á árinu með undirritun á samstarfsyfirlýsingu um aukið samstarf Bláa Lónsins, Jarðvangsins og sveitarfélaganna fjögurra sem eru innan hans um uppbyggingu á svæðinu.  Í því samhengi hafði Bláa Lónið forgöngu um stofnun Þjónustumiðstöðvarinnar Reykjanesvita ehf en markmið félagsins er m.a. að sjá um uppbyggingu og rekstur þjónustumiðstöðvar við Reykjanesvita og aðstoða við merkingar á svæðinu.

Bláa Lónið hefur ávallt lagt mikla áherslu á umhverfismál og sjálfbærni og látið sér annt um það einstaka umhverfi sem umlykur Bláa Lónið.  Eitt stærsta framtak Bláa Lónsins til umhverfismála er óneitanlega fullnýting jarðsjávarins.  Bláa Lónið hefur ennfremur, á undanförnum misserum, unnið að því að lágmarka plastnotkun í starfsemi sinni en hlutfall endurvinnanlegs úrgangs jókst um 10% á síðasta ári. Plastpokar hafa t.a.m. verið teknir úr notkun í verslunum Bláa Lónsins og þegar er hafin hönnun á nýjum umbúðum fyrir húðvörur Bláa Lónsins með það að markmiði að draga úr plastnotkun.  Þá býður Bláa Lónið starfsfólki sínu upp á fríar rútuferðir til og frá vinnu sem er liður félagsins í að draga úr losun koltvísýrings vegna ferða starfsfólks til/frá vinnu með því að hvetja alla til að nýta rútuferðir eða sameinast í bíla eins oft og kostur er.

Nú í sumar samdi Bláa Lónið við Kolvið um að kolefnisjafna allan rekstur Bláa Lónsins frá og með árinu 2019. Markmið samningsins er að binda kolefni, CO2, sem til fellur vegna allrar starfsemi Bláa Lónsins. Þetta stærsti samningur sem Kolviður hefur gert við nokkurt fyrirtæki á Íslandi.

Starfsemi Bláa Lónsins byggir á traustum grunni. Við horfum bjartsýn fram á veginn og munum halda áfram að hlúa að og þróa starfsemi Bláa Lónsins ásamt því að leggja okkar af mörkum til að stuðla að jákvæðri upplifun ferðamanna á Íslandi og sjálfbærum vexti.  Við höfum mikilvægu hlutverki að gegna sem leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu hér á landi.

Ferðaþjónustan er komin til að vera og framtíð Bláa Lónsins er björt.  Það eru spennandi tímar framundan þar sem markmiðið er að nýta tækifærin en á sama tíma að styðja við og styrkja innviði með langtímahugsun að leiðarljósi.

Start typing and press Enter to search