Helgi Magnússon
“The Retreat er dæmi um enn eitt skrefið fram á við í þróun Bláa Lónsins sem forystufyrirtækis í íslenskri ferðaþjónustu þar sem upplifun gesta er í fyrirrúmi.”
Ágætu hluthafar.
Áframhaldandi velgengni einkenndi rekstur Bláa Lónsins hf. á árinu 2018. Fyrirtækið tók á móti 1.250 þúsund gestum á árinu og veltan hefur aldrei verið meiri. Heildartekjur námu 122,6 milljónum evra sem er 20% meira en í metárinu 2017. Afkoma var áfram mjög góð. EBITDA hagnaður nam 39,6 milljónum evra og hagnaður eftir skatta var 26,4 milljónir evra.
Árið 2018 einkenndist mjög af lokaátaki vegna mikillar fjárfestingar í nýju hóteli og upplifunarsvæði, The Retreat, sem opnað var vorið 2018. Um er að ræða 62 herbergja lúxushótel ásamt einstöku upplifunarsvæði.
Þessari starfsemi hefur verið tekið ákaflega vel af viðskiptavinum Bláa Lónsins og reksturinn fer vel af stað. Hér er um að ræða enn eitt skrefið fram á við í þróun Bláa Lónsins sem forystufyrirtækis í íslenskri ferðaþjónustu þar sem upplifun gesta er í fyrirrúmi. Framkvæmdir vegna The Retreat stóðu yfir í fjögur ár enda er hér um að ræða mannvirki sem er einstakt. Þannig þurftu hönnuðir og verktakar að hugsa allt frá grunni þar sem hvergi var að finna viðmiðun við þetta verk. Vel tókst til í alla staði og óhætt er að taka svo djúpt í árinni að segja að hér hafi verið unnið eftirminnilegt afrek sem stjórn, stjórnendur og starfsmenn Bláa Lónsins eru stoltir af.
„Fjármunamyndun í fyrirtækinu hefur gert stjórnendum þess kleift að halda áfram markvissri og metnaðarfullri uppbyggingu á mörgum sviðum. Bæði hafa verið þróaðar nýjar og öflugar rekstrareiningar og einnig hafa innviðir fyrirtækisins verið styrktir myndarlega. Fjárhagsstaða Bláa Lónsins er góð og eiginfjárstaða sterk.”
Rekstur Bláa Lónsins er margvíslegur og hann gekk allur vel á árinu 2018. Til viðbótar við sjálft baðlónið má nefna umfangsmikinn veitingarekstur, framleiðslu og sölu á húðvörum, rekstur lækningalindar og 35 herbergja Silicahótels, sem og rekstur 62 herbergja hótels og upplifunarsvæðis, The Retreat. Auk þessa alls á Bláa Lónið aðild að öðrum áhugaverðum fyrirtækjum í ferðaþjónustu í samstarfi við aðra. Dæmi um það eru Jarðböðin við Mývatn, Gufa á Laugarvatni og farþegaflutningafyrirtækið Destination Blue Lagoon.
Árið 2018 er áttunda árið í röð sem Bláa Lónið nýtur mikillar velgengni og vaxtar á öllum sviðum starfseminnar. Arðsemi fyrirtækisins hefur verið góð öll þessi ár. Fjármunamyndun í fyrirtækinu hefur gert stjórnendum þess kleift að halda áfram markvissri og metnaðarfullri uppbyggingu á mörgum sviðum. Bæði hafa verið þróaðar nýjar og öflugar rekstrareiningar og einnig hafa innviðir fyrirtækisins verið styrktir myndarlega. Fjárhagsstaða Bláa Lónsins er góð og eiginfjárstaða sterk.
“Bláa Lónið er vel í stakk búið að takast á við erfiðara rekstrarumhverfi. Mikil uppbygging fyrirtækisins mun auðvelda því að takast á við breytingar í umhverfinu. Fjárhagsstaðan er sterk, starfsfólk samstíga og öflugt undir öruggri stjórn forstjóra og annarra stjórnenda sem studdir eru heilshugar af stjórn félagsins.”
Undanfarin ár hefur vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu verið undraverður. Vöxtur Bláa Lónsins hefur verið mjög í tak við þá þróun enda á fyrirtækið drjúgan þátt í vextinum sem lykilfyrirtæki í þessari mjög svo vaxandi atvinnugrein. Ferðaþjónusta á Íslandi er orðin stærsta atvinnugrein Íslendinga og sú starfsemi sem aflar langmestra gjaldeyristekna fyrir þjóðina.
Aldrei er of oft minnt á það að ferðaþjónustan gegndi lykilhlutverki í að endurreisa efnahag Íslands eftir bankahrunið árið 2008. Greinin eyddi tilfinnanlegu atvinnuleysi eftir hrunið, kom fjárfestingum af stað, stórjók gjaldeyrisöflun landsmanna, tók þátt í að auka kaupmátt fólks verulega og lagði grunn að margra ára hagvaxtarskeiði. Mikilvægt er að ráðamenn þjóðarinnar hafi þetta í huga þegar þeir ræða málefni atvinnulífsins á Íslandi. Þær umræður einkennast því miður allt of oft af því hvernig unnt er að skattleggja atvinnuvegina enn frekar.
Á árinu 2019 hefur orðið vart við nokkurn samdrátt í ferðaþjónustu á Íslandi, meðal annars vegna ólgu á flugmarkaði. Þannig stefnir í að ferðamönnum til Íslands muni fækka eitthvað á árinu eftir fordæmalausa aukningu um árabil. Bláa Lónið er vel í stakk búið að takast á við erfiðara rekstrarumhverfi að þessu leyti. Mikil uppbygging fyrirtækisins mun auðvelda því að takast á við breytingar í umhverfinu. Þá er fjárhagsstaðan afar sterk. Einnig er vert að nefna að starfsfólkið er samstiga og öflugt undir öruggri stjórn forstjóra og annarra daglegra stjórnenda sem studdir eru heilshugar af stjórn félagsins. Þá hefur hluthafahópur Bláa Lónsins verið samstiga frá upphafi og þannig verður það vonandi áfram.
Fyrir hönd stjórnar Bláa Lónsins hf. vil ég færa starfsfólki og stjórnendum bestu þakkir fyrir frábært starf á árinu 2018. Við trúum því að framtíðin sé björt og fyrirtækið verði áfram í fremstu röð á öllum sviðum eins og verið hefur.